Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að í 58 ára sögu sinni hafi Landsvirkjun aldrei hagnast jafn mikið og aldrei fært eiganda sínum jafnmikinn arð og núna. Lagt er til að ríkissjóður fái tuttugu milljarða króna arðgreiðslu af 45 milljarða króna hagnaði.
Á kynningarfundi forstjóra og fjármálastjóra í morgun kom fram að ytri aðstæður, eins og hátt álverð, hafi verið hagstæðar en stærsta áhrifaþáttinn í góðri afkomu segja þeir þó endursamninga við stóriðjuna.
„Við erum á margan hátt að uppskera, bæði frá þessum virkjunum sem hafa verið byggðar á síðustu 58 árum, og njótum mjög góðs af í dag, en einnig þessari vegferð sem við hófum fyrir tíu árum síðan að endursemja við okkar viðskiptavini. Það er að skila sér í langbesta rekstrarári Landsvirkjunar,“ segir forstjórinn Hörður Arnarson.

Athyglisvert er að á sama tíma og Landsvirkjun byggði Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfellsvirkjun tvö þá snarlækkuðu heildarskuldir fyrirtækisins úr um 400 milljörðum króna árið 2010 niður í um 120 milljarða króna núna. Skuldsetningin núna er þannig minni en fjárfesting fyrirtækisins á síðustu tíu árum, að sögn Harðar.
„Þannig að það má segja það að allar virkjanir fyrir þann tíma eru núna skuldlausar,“ segir forstjórinn.
Og þar með talin Kárahnjúkavirkjun.

Því hefur stundum verið fleygt að almenningur sé að greiða niður orkuverð til stóriðjunnar.
„Ég hef ekki heyrt neinn segja það í mörg ár. Enda er það ekki rétt,“ segir forstjóri Landsvirkjunar. Stóriðjan greiði núna sambærilegt raforkuverð og tíðkist í helstu viðmiðunarlöndum.
„Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við erum ekki að sækja aukinn hagnað Landsvirkjunar til almennings heldur eru þetta fyrst og fremst með endursamningum við stóriðjuna.
Og í dag er staðan þannig að almenningur borgar sama verð og stóriðjan. Það er út af því að við höfum hækkað stóriðjuna en verð á almennum markaði hefur varla fylgt verðlagi,“ segir Hörður.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: