Innlent

Greiða Mogganum og Atla fyrir endur­birtingar á minningar­greinum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Reynir Traustason er ritstjóri Mannlífs og einn eigenda Sólartúns. 
Reynir Traustason er ritstjóri Mannlífs og einn eigenda Sólartúns. 

Reyni Traustasyni og útgáfufélaginu Sólartúni ehf. hefur verið gert að greiða Morgunblaðinu fimmtíu þúsund krónur fyrir endurbirtingar á minningargreinum blaðsins. Þá þurfa Reynir og Sólartún að greiða bróður manns sem Mannlíf birti minningargrein um upp úr Morgunblaðinu þrjú hundruð þúsund krónur. 

Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, stefndi ritstjóra Mannlífs, Reyni Traustasyni, og útgáfufélagi miðilsins, Sólartúni ehf., fyrir fréttaskrif upp úr minningargreinum sem birtust í blaðinu. Krafðist Árvakur þess að fá greiddar 1,5 milljónir fyrir útgáfu- og birtingarrétt greinanna. 

Atli Viðar Þorsteinsson, plötusnúður, fór einnig í mál við Reyni og Sólartún en minningargrein sem hann ritaði um bróður sinn birtist á vef Mannlífs. Í samtali við RÚV á síðasta ári sagðist Atli hafa verið að leita að nafni bróður síns á internetinu þegar hann rakst á greinina. 

„Sé þá mynd af honum við frétt á Mannlífi. Vefurinn hafði endurbirt minningargreinina í kringum heilan haug af auglýsingum,“ sagði Atli. 

Eitt dæmi er um að endurbirting á minningargrein hafi komið til meðferðar siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Í því tilfelli var komist að þeirri niðurstöðu að birting minningargreina væri opinber birting. Endurbirting eða birting á úrdrætti úr henni væri ekki brot á siðareglum. Úrskurðurinn tók þó ekki til höfundaréttarsjónamiða.

Morgunblaðið hefur sett fyrirvara á þær minningargreinar sem birtast í blaðinu að þær megi ekki birta í öðrum miðlum án samþykki höfunda og Morgunblaðsins. 

Dómsuppsaga í báðum þessum málum fór fram í héraðsdómi Reykjaness í morgun. Reyni og Sólartúni er gert að greiða Morgunblaðinu fimmtíu þúsund krónur fyrir að endurbirta minningargreinar úr blaðinu.

Reynir og Sólartún þurfa að greiða Atla Viðari 300 þúsund krónur fyrir endurbirtinguna á grein um bróður hans. 

Hvorki Reynir né Atli Viðar mættu við dómsuppsögu málsins, einungis lögmenn fyrir þeirra hönd. 

Fréttin hefur verið uppfærð með vísun í úrskurð siðanefndar BÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×