„Afbrotafræðin sem sjálfstæð fræðigrein í háskólum hefur vaxið mjög á undanförnum áratugum í öðrum ríkjum. Þá hafa afbrotafræðinámskeið við HÍ notið mikilla vinsælda og almennt mikilvægi afbrotafræðinnar aukist,“ segir Margrét Valdimarsdóttir nýr dósent í félags- og afbrotafræði í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Í náminu verður meðal annars fengist við afbrot og frávikshegðun og hlutverk löggæslu- og réttarvörslukerfisins í tengslum við kynferðisbrot. Margrét segir að afbrotafræðin snúist í grunninn um að rannsaka þróun, skýringar og afleiðingar brota og refsilaga.
„Framhaldsnám í afbrotafræði getur því hentað nemendum með grunnháskólagráðu úr flestum greinum. Nemendur í afbrotafræði erlendis hafa fjölbreyttan grunn, t.d. félagsfræði, sálfræði, lögfræði, lögreglufræði eða hagfræði. Námið getur hentað fólki sem starfar eða hefur starfað í réttarvörslukerfinu mjög vel. Afbrotafræði er hugsuð fyrir fólk sem hefur áhuga á félagslegu samhengi afbrota, refsinga og löggæslu.“