Glódís Perla var á sínum stað í miðri vörn Bayern en liðið var í öðru sæti deildarinnar fyrir leikinn, átta stigum á eftir Wolfsburg sem var í efsta sætinu. Potsdam er hins vegar botnlið þýsku deildarinnar og hefur aðeins náð í eitt stig á tímabilinu til þessa.
Það var því búist við Bayern sigri í dag og sú varð raunin. Georgia Stanway kom gestunum í Bayern yfir á 10.mínútu og Lina Magull tvöfaldaði forystuna tíu mínútum fyrir hálfleik.
Í síðari hálfleik kom Karólína Lea Vilhjálmsdóttir inn hjá Bayern og liðið bætti við þriðja markinu í uppbótartíma þegar Linda Dallmann skoraði
Lokatölur 3-0 og Bayern minnkaði þannig forystu Wolfsburg á toppnum niður í fimm stig. Cecelía Rán Rúnarsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Bayern í dag.