Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að flestir skjálftarnir hafi mælst klukkan hálf átta í kvöld. Fimm skjálftar hafa mælst yfir 2,0 að stærð.

„Við höfum fengið svona virkni reglulega í Mýrdalsjökli þannig að þetta er ekki óalgengt. Við höfum verið með stærri skjálfta – síðast í desember,“ segir Einar Bessi.
Nokkrir skjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í október og nóvember í fyrra. Virknin virðist vægari nú.
„En af því þetta er Mýrdalsjökull og Katla - virk eldstöð, þá er alltaf mikil vakt á þessu og náið fylgst með aðstæðum. Eins og staðan er núna þá hafa ekki bæst við skjálftar síðan klukkan hálf átta,“ segir Einar Bessi að lokum.