Bandaríkjamenn hafa áður sagt að Xi hafi skipað forsvarsmönnum kínverska hersins að vera tilbúnir í að ráðast á Taívan fyrir árið 2027, þó engin ákvörðun um innrás hafi verið tekin. Burns ítrekaði það í gær og sagði hann að Xi væri staðráðinn í því að ná stjórn á Taívan, hvort sem það væri með valdi eða ekki.
„Ég held að okkar mat sé það, og það hefur verið opinberað, að Xi forseti hefur skipað hernum, forsvarsmönnum hersins, að vera tilbúnir til að ráðast á Taívan fyrir árið 2027. En það þýðir ekki að hann hafi ákveðið að gera innrás, þá eða á öðru ári,“ sagði Burns í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi.
Samkvæmt AP fréttaveitunni sagði hann einnig að Xi og leiðtogar hersins hefðu efasemdir um hvort þeir gætu náð tökum á Taívan með hervaldi.
Heita sameiningu
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinnar til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina ríkin og með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Kínverjar hafa á undanförnum árum gengið í gegnum mikla hernaðaruppbyggingu og nútímavæðingu. Það höfðu Rússar einnig gert fyrir innrás þeirra í Úkraínu.
Til að ráðast á Taívan þyrftu Kínverjar að flytja mikinn herafla minnst 130 kílómetra yfir sundið á milli ríkjanna. Þá hafa yfirvöld í Taívan haft áratugi til að víggirða þá fáu staði þar sem hægt væri að lenda þessum herafla.
Efast vegna slæms gengis Rússa
Burns sagði í áðurnefndu viðtali að slæmt gengi Rússa og viðbrögð annarra ríkja við innrásinni hefði aukið á efasemdir Kínverja.
„Ég held, að þar sem þeir hafa fylgst með gengi Pútíns í Úkraínu, að það hafi aukið á efasemdir þeirra,“ sagði Burns. Hann sagði að hættan á innrás í Taívan myndi aukast þegar líður á þennan áratug og vakta þurfi ástandið mjög vel.
Bandaríkin eiga í varnarsamstarfi með Taívan og hefur Joe Biden, forseti, sagt að Bandaríkjamenn myndu koma Taívönum til aðstoðar til tilfelli innrásar. Óljóst er þó hvort það myndi fela í sér beina hernaðaraðstoð eða aðstoð sambærilega þeirri sem Úkraínumenn fá frá Bandaríkjunum. Það er að segja vopn, þjálfun og upplýsingar, meðal annars.
Innrás Rússa í Úkraínu hefur einnig breytt sjónarmiði Bandaríkjamanna. Fregnir bárust af því í haust að greiningar starfsmanna Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna hefðu sýnt að Taívan yrði líklega einangrað um tíma, komi til innrásar, og að koma þyrfti fyrir miklum birgðum af vopnum á eyjunni, áður en innrásin yrði gerð.