Erlent

Finnar byrja að girða sig af frá Rúss­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Fyrsti áfangi framkvæmdanna er þriggja kílómetra löng girðing við Imatra-landamærastöðina í suðaustanverðu Finnlandi. Gröfur byrjuðu að ryðja skóg þar í gær.
Fyrsti áfangi framkvæmdanna er þriggja kílómetra löng girðing við Imatra-landamærastöðina í suðaustanverðu Finnlandi. Gröfur byrjuðu að ryðja skóg þar í gær. Finnska landamærastofnunin

Framkvæmdir við girðingu á hluta landamæra Finnlands og Rússlands eru hafnar. Finnska landamærastofnunin segir að girðingin verði þriggja metra há með gaddavír ofan á henni. Tilgangurinn sé að tryggja landamærin frekar.

Finnsk stjórnvöld ákváðu að ráðast í framkvæmdirnar til þess að girða fyrir vaxandi fjölda Rússa sem smygla sér yfir landamærin til þess að koma sér undan herkvaðningu vegna innrásarinnar í Úkraínu í heimalandinu.

Girðingin verður tvö hundruð kílómetra löng. Byrjað var að ryðja skóg við Imatra-landamærastöðina á þriðjudag. Vega- og girðingarvinnan sjálf á að hefjast strax í þessum mánuði. Hitamyndavélar, flóðljós og hátalarar verða við ákveðna kafla girðingarinnar, að sögn landamærastofnunarinnar.

Fullbyggð nær girðingu aðeins yfir brot af landamærum Finnlands og Rússlands sem eru um 1.340 kílómetra löng. Landamærin nú eru aðallega tryggð með viðargirðingu sem á fyrst og fremst að halda búfé í skefjum.

Finnar hafa hert á öryggismálum sínum eftir að Rússa réðust inn í Úkraínu fyrir ári. Þeir breyttu lögum um landamæraeftirlit til þess að geta sett upp rammgerðari girðingu í júlí, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þá stigu Finnar það tímamótaskref ásamt nágrönnum sínum Svíum að falast eftir inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Tyrknesk stjórnvöld leggja nú stein í götu Svía en finnska ríkisstjórnin er staðráðin í að halda aðildarferlinu áfram áður en Finna ganga til þingkosninga í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×