Erlent

Ó­væntur hliðar­fundur á hita­fundi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samsett mynd af Sergei Lavrov, sem er til vinstri og er utanríkisráðherra Rússlands og Antony Blinken, til hægri, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Samsett mynd af Sergei Lavrov, sem er til vinstri og er utanríkisráðherra Rússlands og Antony Blinken, til hægri, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP Photo/Manish Swarup

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands hittust stuttlega á óvæntum hliðarfundi á samkomu G20-ríkjanna á Indlandi í dag.

Þetta er í fyrsta sinn sem þeir Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hittast í persónu frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir rétt rúmu ári.

Nú stendur yfir fundur G20-ríkjanna, helstu iðnríkja heims. Að þessu sinni fer fundurinn fram í Nýju-Delí á Indlandi. Þar hefur orkunni helst verið eytt í að ræða innrás Rússa í Úkraínu. Hafa Rússar verið harðlega gagnrýndir á fundinum. Nokkur hiti hefur verið í umræðunum, svo mikill að ekki er að vænta sameiginlegrar yfirlýsingar að fundi loknum, líkt og venjan er

Fyrir fundinn hafði ekki verið reiknað með því að Blinken og Lavrov myndu ræðast sérstaklega við.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna Antony Blinken, efst fyrir miðju, gengur framhjá rússneska kollega sínum Sergei Lavrov á G20 fundinum í morgun.Olivier Douliery/Pool Photo via AP

Önnur virðist þó hafa verið raunin. Í frétt CNN er vísað í upplýsingar frá bandarískum embættismanni sem og talsmanni rússneska utanríkisráðuneytisins um að Blinken hafi óskað eftir því að ná tali af Lavrov.

Eru þeir sagðir hafa ræðst við í um tíu mínútur þar sem Blinken áréttaði meðal annars stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu vegna innrásarinnar. Er hann sagður hafa sagt við Lavrov að Bandaríkjamenn myndu styðja Úkraínu eins lengi og þurfa þyrfti.

Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins segir að fundurinn, ef fund skyldi kalla, hafi verið haldinn í hraði og á ferðinni, líkt og það er orðað á vef CNN.

Fundurinn markar nokkur tímamót en eins og fyrr segir hafa utanríkisráðherrarnir ekki hist í persónu frá því að innrásin hófst. Þeir hafa þó oft verið á sömu fundum og á sama stað, án þess að ræðast sérstaklega við, fyrr en nú.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×