Fótbolti

Um­boðs­maður Haalands segir Real Madrid vera draum hvers leik­manns

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gæti Erling Braut Haaland verið á leið til Real Madrid í nánustu framtíð.
Gæti Erling Braut Haaland verið á leið til Real Madrid í nánustu framtíð. Manchester City FC/Manchester City FC via Getty Images

Rafaela Pimenta, umboðsmaður framherjans Erlings Braut Haaland, segir að það sé draumur hvers leikmanns að fara til spænska stórveldisins Real Madrid.

Hinn 22 ára gamli Haaland hefur vægast sagt farið vel af stað síðan hann gekk í raðir Manchester City frá Borussia Dortmund og hefur hann skorað 27 deildarmörk fyrir liðið í aðeins 24 leikjum.

Þrátt fyrir að vera nýlega genginn í raðir Englandsmeistaranna eru margir strax farnir að velta fyrir sér hvaða skref hann tekur næst á ferlinum og Pep Guardiola, knattspyrnustjóri liðsins, hefur áður þurft að neita fyrir sögusagnir þess efnis að leikmaðurinn sé með klásúlu í samningi sínum sem geri honum kleift að ganga í raði Madrídinga næsta sumar.

„Þú ert með ensku úrvalsdeildina og svo ertu með Real Madrid,“ sagði umboðsmaður Norðmannsins í vikunni.

„Þeir eru með eitthvað einstakt sem gerir það að verkum að þeir eru draumur hvers leikmanns. Madrid heldur töfrunum á lífi. Þeir eru kannski ekki í hörkuleikjum í hverri viku, en þeir eru með Meistaradeildina,“ bætti Pimenta við, en Real Madrid er langsigursælasta lið í sögu Meistaradeildarinnar.

Madrídingar hafa unnið Meistaradeild Evrópu alls fjórtán sinnum, þar af fimm sinnum síðan liðið sló Englandsmeistara Manchester City úr leik í undanúrslitum árið 2014. Haaland og félagar hans í City eiga hins vegar enn eftir að vinna keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×