Fótbolti

Dortmund skaust á toppinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dortmund skaust á topp þýsku úrvalsdeildarinnar með sigri gegn Leipzig í kvöld.
Dortmund skaust á topp þýsku úrvalsdeildarinnar með sigri gegn Leipzig í kvöld. Martin Rose/Getty Images

Dortmund skaust í það minnsta tímabundið á topp þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu er liðið vann 2-1 sigur gegn RB Leipzig í kvöld.

Toppbaráttan í þýsku deildinni hefur sjaldan verið jafn spennandi og fyrir leik kvöldsins munaði aðeins fimm stigum á liðunum í fyrsta og fimmta sæti.

Dortmund sat í örðu sæti deildarinnar fyrir leikinn með 46 stig, jafn mörg og topplið Bayern München, en Leipzig sat í fjórða sæti með fjórum stigum minna.

Það voru heimamenn í Dortmund sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Marco Reus skoraði af vítapunktinum eftir rétt um tuttugu mínútna leik, áður en Emra Can tvöfaldaði forystu liðsins stuttu fyrir hálfleikshléið.

Emil Forsberg minnkaði þó muninn fyrir gestina á 74. mínútu, en nær komst Leipzigliðið ekki og niðurstaðan varð 2-1 sigur Dortmund.

Dortmund trónir nú á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með 49 stig eftir 23 leiki, þremur stigum meira en Bayern München sem situr í öðru sæti og á leik til góða. Leipzig situr hins vegar enn í fjórða sæti með 42 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×