Innlent

Íslenska ullin hefur sjaldan eða aldrei verið eins vinsæl og nú

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fallegar lopapeysur í Gömlu Þingborg en 60 konur víðs vegar um landið prjóna peysurnar fyrir verslunina.
Fallegar lopapeysur í Gömlu Þingborg en 60 konur víðs vegar um landið prjóna peysurnar fyrir verslunina. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eftirspurn eftir vörum úr íslenskri ull hefur sjaldan eða aldrei verið eins mikil og nú, enda rjúka prjónavörur úr verslunum út eins og heitar lummur. Erlendir ferðamenn kaupa til dæmis oft margar, margar lopapeysur þegar þeir koma við í versluninni Þingborg í Flóahreppi til að taka með sér heim.

Íslenska sauðkindin er mögnuð skepna því það er ekki bara kjötið, sem er gott af henni heldur er ullin mjög verðmæt þegar það er vaxandi eftirspurn eftir prjónavörum úr ullinni.

Felldfé er til dæmis ræktað fyrst og fremst vegna ullarinnar.

„Það er bara ræktað fyrir gæru eiginleikum og ullar eiginleikum, kjötið er númer þrjú hjá okkur, það er auka afurð. Ástæðan er sú að við erum að fá mjög gott verð ullina,“ segir Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir Sörensen, frístundabóndi og ullarsérfræðingur

Þannig að ullin er alltaf að verða verðmætari og verðmætari?

„Já, algjörlega og það er mikil ásókn í íslenska ull og það er vöntun á góðri ull, þannig að já, við erum virkilega að fá fyrir okkar vinnu í þessu. Það er ullarskortur og það þarf þá bara að fara að borga bændum fyrir ull,“ segir Elísabet.

Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir Sörensen, frístundabóndi og ullarsérfræðingur, sem ræktar felldfé með góðum árangri vegna ullarinnar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Við þjóðveg númer eitt í Flóanum, skammt austan við Selfoss er ullarverslun í i gömlu Þingborg þar sem mikil eftirspurn er eftir allskonar ullarvörum í versluninni.

„Þetta er vaxandi fyrirtæki með líka aukinni ferðamannatraffík. Erlendir ferðamenn eru mjög áhugasamir um íslenska lopann og þeir kaupa það, sem þeim langar í yfirleitt í, þeir eru ekkert að spá í hvað hlutirnir kosta enda erum við með fallega vöru,“ segir Margrét Jónsdóttir, verslunarstjóri í Gömlu Þingborg.

Margrét segir að lopapeysurnar séu alltaf langvinsælastar enda kaupi erlendu ferðamennirnir oft margar peysur til að taka mér sér heim. Um 60 prjónakonur víðs vegar um landið prjóna peysur fyrir búðina.

„Íslenska ullin er bara svo góð, mjúk og fín og hlý, vatnsheld og dásamleg. Ég er mjög vel staðsett með verslunina hér enda fæ ég mikið af lausatraffík til mín og skipulagða hópa líka,“ bætir Margrét við.

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér í þessu?

„Ég vona bara að þetta haldi áfram eins og þetta hefur gert hingað til. Við stefnum allavega á að reka þetta svona með svipuðu sniði,“ segir Margrét að lokum.

Margrét Jónsdóttir, sem sér um rekstur ullarverslunarinnar í Gömlu Þingborg í Flóahreppi við þjóðveg númer eitt.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ullarverslunin á Gömlu Þingborg í Flóahreppi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×