Fótbolti

Íslensk samvinna skilaði Lyngby öðrum sigri tímabilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði fyrir Lyngby í dag.
Alfreð Finnbogason skoraði fyrir Lyngby í dag. Vísir/Getty

Alfreð Finnbogason skoraði eina mark leiksins er Lyngby vann mikilvægan 1-0 sigur gegn Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Alfreð kom Lyngby í forystu þegar um 25 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, en það var Kolbeinn Finnsson sem lagði upp mark Alfreðs. Sævar Atli Magnússon var einnig í byrjunarliði Lyngby og Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins.

Þrátt fyrir sigurinn situr Lyngby enn á botni dönsku deildarinnar, nú með tólf stig eftir 20 leiki, aðeins tveimur stigum á eftir Álaborg sem situr sæti ofar.

Þá var Stefán Teitur Þórðarson í byrjunarliði Silkeborg er liðið vann 2-1 sigur gegn Nordsjælland. Silkeborg situr í sjötta sæti deildarinnar með 28 stig og er í harðri baráttu um að enda í efri hluta deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×