Fótbolti

Hákon skoraði er FCK vann risasigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson var á skotskónum fyrir FCK í kvöld.
Hákon Arnar Haraldsson var á skotskónum fyrir FCK í kvöld. Vísir/Getty

Hákon Arnar Haraldsson skoraði fimmta mark FC Kaupmannahafnar er liðið vann 7-0 risasigur gegn Aroni Elísi Þrándarsyni og félögum hans í OB í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Gestirnir í OB urðu fyrir áfalli á 28. mínútu þegar Aske Adelgaard fékk að líta beint rautt spjald og liðið þurfti því að spila manni færri seinasta klukkutíma leiksins. Heimamenn nýttu sér liðsmuninn svo sannarlega og voru búnir að skora tvö mörk áður en fyrri hálfleik lauk.

Aron Elís, sem var í byrjunarliði OB, var svo tekinn af velli í hálfleik. Heimamenn bættu þremur mörkum við á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiksins og þar af skoraði Hákon Arnar eitt.

Gestirnir nældu sér svo í annað rautt spjald á 62. mínútu áður en liðsmenn FCK bættu tveimur mörkum til viðbótar við á lokamínútum leiksins.

Niðurstaðan varð því 7-0 risasigur FCK sem nú situr í öðru sæti deildarinnar með 36 stig eftir 20 leiki, þremur stigum á eftir toppliði Nordsjælland. OB situr hins vegar í níunda sæti með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×