Körfubolti

Lögreglan rannsakar hvort Morant hafi brotið vopnalög

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ja Morant er búinn að koma sér í klandur.
Ja Morant er búinn að koma sér í klandur. getty/Justin Ford

Lögreglan í Colorado rannsakar nú hvort Ja Morant, stjörnuleikmaður Memphis Grizzlies, hafi gerst brotlegur við vopnalög þegar hann virtist veifa byssu á skemmtistað í borginni um helgina.

Morant er kominn í leyfi frá störfum eftir að myndband af honum á Instagram-síðu hans þar sem hann virtist veifa byssu á skemmtistað í Colorado aðfaranótt laugardags. Atvikið átti sér stað eftir að Memphis tapaði fyrir Denver Nuggets, 113-97, í NBA-deildinni.

Samkvæmt vopnalögum í Colorado er heimilt að ganga með byssu í ríkinu með nokkrum undantekningum, meðal annars ef viðkomandi er undir áhrifum áfengis.

Memphis sendi Morant í tveggja leikja leyfi en þjálfari liðsins, Taylor Jenkins, sagði þó óvíst hvenær hann sneri aftur til starfa. Morant baðst afsökunar á hegðun sinni, sagðist taka ábyrgð á henni og ætlar að leita sér hjálpar.

Morant, sem er 23 ára, er níundi stigahæsti leikmaður NBA á tímabilinu með 27,1 stig að meðaltali í leik. Þá er hann með 6,0 fráköst og 8,2 stoðsendingar að meðaltali í leik. Memphis er í 2. sæti Vesturdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×