Viðskipti innlent

RB sendi gögn um við­skipta­vini indó á vit­lausan banka

Bjarki Sigurðsson skrifar
Höfuðstöðvar Reiknistofu bankanna eru á Höfðatorgi.
Höfuðstöðvar Reiknistofu bankanna eru á Höfðatorgi. Vísir/Vilhelm

Mistök urðu í gagnaafhendingu Reiknistofu bankanna (RB) sem varð til þess að gögn um fjárhagsfærslur viðskiptavina indó voru send inn í lokað tölvukerfi Kviku banka. Kvika hvorki skoðaði né rýndi í gögnin heldur var þeim tafarlaus eytt. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef indó. Þar segir að engar upplýsingar um kortafærslur aðrar en fjárhæðir hafi verið hluti af gögnunum en starfsfólk Kviku og RB brást hratt við þegar mistökin uppgötvuðust. 

Málið snýst um gagnasendingar til Kviku sem hófust þann 3. febrúar síðastliðinn. Bankinn hóf ekki að vista gögnin í gagnagrunn fyrr en þann 27. febrúar en uppgötvar strax við fyrstu skoðun þann 3. mars að RB hafi, fyrir mistök, deilt gögnum frá röngum aðila.

RB var tafarlaust tilkynnt um málið og var gögnunum eytt. Tilviljun réði því að um gögn indó var að ræða en ekki annars banka eða sparisjóðs. Í tilkynningu indó segir að bankinn hafi ekkert geta gert til þess að koma í veg fyrir þessi mistök. 

„Reiknistofa bankanna tekur fulla ábyrgð á þessum mistökum og hefur beðist afsökunar á þeim. Það var ekkert sem indó hefði getað gert til að afstýra þessu enda öll framkvæmd og rekstur umræddra kerfa á ábyrgð RB,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×