Erlent

Móðgaði kónginn með gúmmí­anda­daga­tali

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gular endur hafa orðið friðartákn mótmælenda í Taílandi sem krefjast lýðræðis.
Gular endur hafa orðið friðartákn mótmælenda í Taílandi sem krefjast lýðræðis. Getty/Peerapon Boonyakiat

Taílenskur karlmaður hefur verið dæmur í tveggja ára fangelsi yfir að selja dagatöl með gúmmíöndum sem klæddar voru í konungsgersemar ríkisins. Athæfið telst ærumeiðing gegn konungsfjölskyldu ríkisins. 

Hinn 26 ára gamli Narathorn Chotmankongsin var handtekinn í desember árið 2020 fyrir að hafa selt dagatölin á Facebook-síðunni Ratasadon. 

Við myndirnar af gúmmíöndunum sem klæddar voru í konungsgersemarnar voru einnig umdeildir textar. Telst þetta vera brot á svokölluðum „lese majeste“-lögum og var hann því dæmdur til fangelsisvistar. 

Chotmankongsin er einn af tvö hundruð sem dæmdir hafa verið í fangelsi síðastliðin þrjú ár fyrir að móðga konungsfjölskylduna. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa gagnrýnt dóminn. 

„Þetta mál sendir öllum Taílendingum skilaboð, og öllum heiminum, að Taíland er að færast fjær því, ekki nær því, að verða lýðræðisríki sem virðir réttindi,“ hefur BBC eftir Elaine Pearson hjá Humar Rights Watch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×