Þetta kemur fram í dómsskjölum sem opinberuð hafa verið vegna málshöfðunar Dominion Voting Systems gegn Fox. Dominion framleiðir kosningavélar sem notaðar eru víða í Bandaríkjunum en fyrirtækið hefur höfðað mál gegn fólki sem tók undir umfangsmiklar ásakanir um að fyrirtækið hafi staðið í kosningasvindli.
Forsvarsmenn Dominion hafa sakað Fox um meiðyrði og krefjast þess að sjónvarpsstöðin greiði 1,6 milljarð dala í skaðabætur.
Vegna málsins komu lögmenn Dominion höndum yfir tölvupósta og skilaboð starfsmanna Fox sem sýna að forsvarsmenn sjónvarpsstöðvarinnar voru slegnir yfir því hve mikið stuðningsmenn Trump reiddust út í Fox á kosninganótt 2020.
Fox var fyrsta fréttastofan til að lýsa því yfir á kosningakvöld 2020 að Biden hefði unnið í Arizona og þar með að Trump yrði ekki forseti áfram. Trump og bandamenn hans urðu bálreiðir og Trump gagnrýndi stöðina harðlega. Margir fylgjendur Trumps reiddust einnig og fjöldi þeirra sneri sér þess í stað að Newsmax og OANN, sem eru enn lengra til hægri en Fox á hinu pólitíska rófi.
Til að reyna að fá þessa áhorfendur til baka, ýttu forsvarsmenn og þáttastjórnendur Fox undir lygar Donalds Trump, fyrrverandi forseta um að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur.
Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar gerðist það næstum því á sama tíma að Trump hrósaði Carlson fyrir umdeilda umfjöllun hans um árásina á þinghúsið þann 6. janúar árið 2021 og skilaboð Carlsons voru gerð opinber. Skilaboð þar sem sjónvarpsmaðurinn sagðist hata Trump út af lífinu.
Þinglögreglan og þingmenn beggja flokka hafa gagnrýnt umfjöllun Carlsons harðlega. Í þættinum reyndi Carson að hvítþvo árásina þegar stuðningsmenn Trumps reyndu að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020.
Sjá einnig: Repúblikanar og lögregla gagnrýna Carlson og Fox News
Í skilaboðum sem Tucker Carlson sendi ótilgreindum aðila þann 4. janúar 2021 sagði Carlson: „Við erum svo nærri því að geta hunsað Trump flest kvöld“ og að hann „Gæti ekki beðið eftir því“.
Í öðrum skilaboðum sagði þáttastjórnandinn að forsetatíð Trumps hefði verið hrottaleg og að hann hefði engum árangri skilað. Það væri bara ekkert hægt að tala um það, því enginn vildi heyra það.
Þá sagði Carlson í öðrum skilaboðum að hann teldi að Trump gæti „auðveldlega gert útaf við okkur ef við spilum illa úr spilunum“.
Í sjónvarpsþætti sínum hefur Carlson þó ítrekað lofað Trump í hástert og meðal annars kallað hann besta forseta Bandaríkjanna.