Körfubolti

Ja Morant sleppur án ákæru eftir byssumyndbandið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ja Morant sleppur með skrekkinn eftir atvikið á næturklúbbnum.
Ja Morant sleppur með skrekkinn eftir atvikið á næturklúbbnum. Vísir/Getty

Ja Morant leikmaður Memphis Grizzlies verður ekki ákærður fyrir að hafa borið byssu á næsturklúbbi í Colorado umm síðastliðna helgi. Lögreglan greindi frá þessu í tilkynningu og segist ekki hafa nægar sannanir.

Morant komst í fréttirnar á dögunum eftir að birt myndband á Instagram frá næturklúbbi en þar sást hann með skammbyssu. Atvikið átti sér stað á nektarstað snemma á laugardagsmorgun. Hann baðst í kjölfarið afsökunar á atvikinu og hefur ekki æft né spilað með liði Grizzlies síðan þá.

Í yfirlýsingu Grizzlies í dag segir að hann verði ekki með liðinu í að minnsta kosti næstu fjórum leikjum sem þýðir að hann snýr í fyrsta lagi aftur 17. mars þegar liðið mætir San Antonio Spurs.

Lögreglan í Glendale í Colorado-fylki sagði að hún hefði lokið rannsókn málsins eftir að hafa fengið tilkynningu um myndbandið. Í yfirlýsingu lögreglunnar segir að ekki hafi verið nægilega góð sönnunargögn til staðar.

„Lögreglan í Glendale gat ekki staðfest að til staðar væru nægilega góð sönnunargögn svo hægt væri að leggja fram ákæru. Vert er að taka fram að lögreglan fékk enga ósk um aðstoð á næsturklúbbnum vegna vopns. Engin tilkynning barst og engir gestir næturklúbbsins lögðu fram kvörtun. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að engum var ógnað með byssunni og í raun fannst aldrei nein byssa.“

Reglur NBA-deildarinnar banna leikmönnum að bera byssur á meðan þeir eru á svæði liða sinna eða að sinna erindum liðsins. Í Colorado er leyfilegt að bera vopn þó á því séu undantekningar. Til dæmis er bannað að bera vopn undir áhrifum áfengis.

Í myndbandinu er óljóst hvort Morant var undir áhrifum áfengis en þar sjást aðrir í hans félagsskap með drykki. Óljóst er hvort NBA-deildin mun aðhafast frekar í málinu en líklegast er að Morant hafi sloppið með skrekkinn en hann er lykilmaður í sterku liði Grizzlies sem situr sem stendur í þriðja sæti Vesturdeildar NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×