Að sögn Óskars Hallgrímssonar ljósmyndara, sem er búsettur í Kænugarði, heyrðust sprengingar þar í morgun. Borgarstjórinn Vitaly Klitschko segir að minnsta kosti tvo særða.
Þá hafa borist fregnir af því að fjórir fullorðnir, tveir karlar og tvær konur, hafi látist í Lviv þegar sprengja féll á íbúðabyggingu. Unnið er að því að fara í gegnum rústirnar.
Orkufyrirtækið Enerhoatom tilkynnti í morgun að árásirnar hefðu orðið til þess að kjarnorkuverið í Zaporizhzhia er ekki lengur tengt við orkunet landsins og gengur nú fyrir varaafli. Það dugir í allt að tíu daga.
CNN birti í gær viðtal við Vólódímir Selenskí Úkraínuforseta, þar sem hann sagði enga ástæðu til að ræða við Vladimir Pútín Rússlandsforseta þar sem hann væri ekki traustsins verður. Úkraínumenn myndu ekki ganga til friðarviðræðna fyrr en Rússar hefðu yfirgefið landið.