Miðlunartillaga ríkissáttasemjara sem lögð var fram í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins var í gær samþykkt og kjarasamningur því svo gott sem kominn á. Forsætisráðherra fagnar niðurstöðunni.
„Og ég held að það skipti miklu máli að samningum núna sem eru fram undan á hinum opinbera markaði að þeim verði vonandi lokið líka með farsælum hætti,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.
Ekki sjálfbært umhverfi
Starfsfólk í veitingaþjónustu mun þurfa að lúta kjarasamningnum og segist Aðalgeir Ástvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði ósáttur við að samtökin hafi ekki haft neina aðkomu að kjarasamningsviðræðum. Forsvarsmenn samtakanna hafi ítrekað reynt að komast að samningaborðinu án árangurs.
„Rödd okkar þarf að heyrast, augljóslega þegar staðan er orðin það slæm að launahlutfall er komið upp undir 50 prósent af veltu fyrirtækja. Það getur ekki talist sjálfbært vinnuumhverfi,“ segir Aðalgeir.
Þungur biti að kyngja
Það sé því þungur biti að kyngja að þurfa að fylgja kjarasamningum sem samtökin hafi enga aðkomu að - sér í lagi þegar starfsumhverfi veitingageirans sé ólíkt öðrum greinum. Fyrst og fremst vegna þess að um 70 prósent vinnutímans fer fram utan hefðbundinnar dagvinnu.
„Og við vinnum undir samningum sem gera ráð fyrir að dagvinna sé hið hefðbundna starfsfyrirkomulag.“
Þá bendir hann á að í nágrannalöndum eru kjarasamningar fyrir greinina á þá leið að kvöldálag byrjar seinna auk þess sem það sé krónutala en ekki prósentutala af dagvinnunni.
„Það finnst mér bara galið“
Aðalgeir segir að umhverfi kjaraviðræðna þarfnist gríðarlegrar endurskoðunar enda ótrúlegt að hægt sé að horfa fram hjá jafn stórum samtökum og SVEIT.
„Stéttarfélög geta bara valið viðsemjendur virðist vera og það yrði nú örugglega annað hljóð í kútnum ef það væri öfugt snúið. Ef það væri stéttarfélag sem ekkert atvinnurekendafélag myndi vilja tala við. Það finnst mér bara galið.“