Handbolti

„Aron er enginn leiðtogi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson átti ekki góðan leik í Brno.
Aron Pálmarsson átti ekki góðan leik í Brno. vísir/vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vantar sárlega leiðtoga. Þetta var meðal þess sem var rætt í Handkastinu í gær.

Ísland tapaði fyrir Tékklandi, 22-17, í Brno í undankeppni EM 2024 í fyrradag. Frammistaða íslenska liðsins var afleit, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem það skoraði aðeins sjö mörk.

Arnar Daði Arnarsson lét gamminn geysa í Handkastinu ásamt Henry Birgi Gunnarssyni og Valtý Birni Valtýssyni.

„Það er andleysi í færanýtingu og varnarleiknum í fyrri hálfleik. Menn kláruðu ekki maður á mann stöðu og þurftu alltaf hjálparvörn. Þetta er leiðtogalaus her. Það er enginn sem tekur af skarið. Jújú, við heyrðum einhver leikhlé þar sem menn voru gargandi út í loftið,“ sagði Arnar Daði.

„Það er enginn sem tekur af skarið í sókninni. Gísli Þorgeir [Kristjánsson] hnoðar og hnoðar og hnoðar en ekkert kemur úr bakstrinum. Sóknarleikur í seinni hálfleik var algjörlega handónýtur. Eina sem gerðist í seinni hálfleik var að vörnin þéttist aðeins og Björgvin [Páll Gústavsson] hélt sjó. Og seinni bylgjan, þetta er eins og að horfa á krakka í 7. flokki hlaupa upp völlinn.“

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska liðsins, náði sér engan veginn á strik í leiknum í fyrradag.

„Hver á að draga liðið upp úr skítnum? Hver er leiðtoginn? Aron Pálmarsson er fyrirliði en enginn leiðtogi. Hann sýnir það enn og aftur að hann höndlar ekki að vera leiðtogi í þessu liði. Hann skorar alltaf fyrsta mark leiksins og hann gerði það í gær en það var eina markið hans. Hann skoraði eitt mark úr fimm skotum og var með að minnsta kosti þrjá tapaða bolta,“ sagði Henry Birgir.

„Aron var ævintýralega lélegur í þessum leik. Hann var brjálaður út í sjálfan sig. Við erum búin að bíða og bíða og bíða eftir að Aron stígi upp sem leiðtogi en það gerist ekki. Að mínu mati er Aron búinn að spila sig út sem byrjunarliðsmaður.“

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×