Erlent

„Blóðbað“ í ríkissal Votta í Hamborg

Samúel Karl Ólason skrifar
Skotárásin var gerð í ríkissal Votta jehóva í Hamborg.
Skotárásin var gerð í ríkissal Votta jehóva í Hamborg. Getty/Jonas Walzberg

Minnst sjö eru sagðir látnir og átta særðir eftir skotárás í Hamborg í kvöld. Árásin var gerð í ríkissal Votta Jehóva í borginni, samkvæmt fjölmiðlum í Þýskalandi.

Héraðsmiðillinn Hamburger Morgen Post lýsir árásinni sem blóðbaði en lögreglan segir að árásarmaðurinn sé líklega meðal hinna látnu.

Ekkert bendi til þess að árásarmaður gangi laus, eins og upprunalega var talið. Þá var ekki ljóst í upphafi hvort árásarmaðurinn hafi verið einn að verki. 

Bild hefur eftir talsmanni lögreglunnar að lögregluþjónar hafi verið fljótir á vettvang og þeir hafi heyrt byssuskot þegar þeir mættu fyrst. Fyrst var sagt að minnst sex hefðu dáið en sjöundi maðurinn er sagður hafa fundist á efri hæð húsnæðisins.

Peter Tschentscher, borgarstjóri, skrifaði á Twitter í kvöld að fregnirnar væru hræðilegar.

Lögreglan segir tilefni ekki liggja fyrir og biður almenning um að dreifa ekki orðrómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×