Menning

Ekkert hand­rit hentaði sem verð­launa­saga

Atli Ísleifsson skrifar
Stofnað var til Íslensku barnabókaverðlaunanna árið 1985 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru verðlaunin veitt í fyrsta sinn vorið 1986.
Stofnað var til Íslensku barnabókaverðlaunanna árið 1985 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru verðlaunin veitt í fyrsta sinn vorið 1986. Vísir/Vilhelm

Íslensku barnabókaverðlaunin verða ekki veitt í ár. Dómnefnd Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka hefur nú lesið þau handrit sem bárust í samkeppnina í ár og er niðurstaða hennar sú að ekkert þeirra henti sem verðlaunasaga.

Frá þessu segir á vef Forlagsins. Þar er tekið fram að þeir höfundar sem sendu inn handrit í keppnina geti sótt þau á skrifstofu Forlagsins til 14. apríl næstkomandi, en eftir það verður þeim fargað.

Ennfremur er tekið fram að skilafrestur í samkeppni næsta árs verði auglýstur á haustmánuðum og hvetur nefndin alla áhugasama til að fylgjast vel með og byrja strax að ydda blýantinn.

Stofnað var til Íslensku barnabókaverðlaunanna árið 1985 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru verðlaunin veitt í fyrsta sinn vorið 1986. Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið, en í dómnefnd sitja fulltrúar þessara aðila, auk tveggja nemenda úr 8. bekk grunnskóla.

Verðlaunahandritið hefur komið út að hausti þar sem nafn verðlaunahafans hefur verið kunngjört um leið, en verðlaunaféð er ein milljón króna, auk höfundarlauna.

Verðlaunahafar síðustu ára

  • Ertu Guð, afi? eftir Þorgrím Þráinsson, 2010
  • Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, 2011
  • Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, 2012
  • Ótrúleg ævintýri afa eftir Guðna Líndal Benediktsson, 2014
  • Skuggasaga – Arftakinn eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur, 2015
  • Skóladraugurinn eftir Ingu Mekkín Beck, 2016
  • Er ekki allt í lagi með þig? eftir Elísu Jóhannsdóttur, 2017
  • Stormsker – Fólkið sem fangaði vindinn eftir Birki Blæ Ingólfsson, 2018
  • Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson, 2019
  • Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur, 2020
  • Ljósberi eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson, 2021

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.