Erlent

Birtu myndband af þotunni lenda á drónanum

Samúel Karl Ólason skrifar
Áður en annarri herþotunni var flogið utan í drónann var annarri þeirra flogið yfir hann og eldsneyti varpað frá þotunni.
Áður en annarri herþotunni var flogið utan í drónann var annarri þeirra flogið yfir hann og eldsneyti varpað frá þotunni. Skjáskot/Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur birt myndband sem sýnir þegar rússneskri herþotu var flogið á bandarískan dróna yfir Svartahafi. Myndbandið sýnir rússneska flugmenn reyna að varpa eldsneyti á drónann og í annarri tilrauninni lendir ein herþotan utan í drónanum svo hreyfill hans skemmist.

Eftir atvikið þurfti að lenda drónanum í sjónum, um þrjátíu sjómílur frá ströndum Úkraínu.

Dróninn var af gerðinni MQ-9 Reaper en Bandaríkjamenn segja honum hafa verið flogið í hefðbundnu eftirlitsflugi yfir alþjóðlegu hafsvæði yfir Svartahafi.

Rússar segjast ætla að reyna að sækja drónann, þar sem hann brotlenti, en hann er líklega á miklu dýpi og það gæti reynst Rússum erfitt.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hringdi í Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, í gær og tilkynnti honum að Bandaríkjamenn myndu ekki hætta að fljúga um þetta svæði, né önnur þar sem það væri ekki ólöglegt.

Sjá einnig: Rússar sagðir komnir á staðinn þar sem dróninn brot­lenti

Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt rússnesku flugmennina harðlega og segja framferði þeirra hafa verið hættulegt og ófagmannlegt.

Rússar hafa haldið því fram að dróninn hefði brotlent vegna þess að flugmaður hans hefði misst stjórn á honum.


Tengdar fréttir

Rússar sagðir komnir á staðinn þar sem dróninn brot­lenti

Rússar eru mættir á staðinn þar sem flygyldi Bandaríkjamanna brotlenti á Svartahafi. Mark Milley, formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, segir drónann líklega á töluverðu dýpi og að erfitt verði að ná honum upp.

Rússar ætla að sækja drónann í Svartahaf

Rússar ætla að reyna að sækja brak bandaríska drónans sem brotlenti í Svartahafi í gær. Bandaríkjamenn segja drónann hafa lent í hafinu eftir að rússneskri herþotu hafi verið flogið utan í hann.

Rússar þvinguðu bandarískan dróna til nauðlendingar

Bandaríski flugherinn sakar Rússa um glannaskap þegar rússnesk herþota þvingaði bandarískan eftirlitsdróna til þess að nauðlenda í Svartahafi í dag. Atvikið er það fyrsta á milli ríkjanna tveggja frá því að stríðið í Úkraínu hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×