Samkvæmt upplýsingum fréttastofu mun Sævar Freyr láta af störfum í lok þessa mánaðar og Haraldur taka við bæjarstjórastólnum í lok apríl. Steinar Adolfsson, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarins, mun sinna verkefnum bæjarstjóra þar til að Haraldur mætir til vinnu.
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu kemur fram að Haraldur hafi síðastliðin tíu ár verið alþingismaður fyrir Norðvesturkjördæmi og þá hafi hann meðal annars setið í atvinnuveganefnd, fjárlaganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Þá hafi hann verið stjórnarformaður Orkusjóðs og veitt stjórn Fjarskiptasjóðs formennsku á síðastliðnum árum. Haraldur hefur að auki verið formaður fjölda nefnda og stýrihópa á vegum stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands.
Haft er eftir Valgarði Lyngdal Jónssyni, forseta bæjarstjórnar Akraness, að Haraldur hafi þekkingu og reynslu sem bæjarfulltrúar séu fullvissir um að muni nýtast vel í starfi bæjarstjóra, Akraneskaupstað og samfélaginu á Akranesi til heilla.
„Alger einhugur ríkir í bæjarstjórn um ráðningu Haralds og við erum þess fullviss að hann muni veita bæjarfélaginu öfluga forystu á áframhaldandi uppgangstímum bæjarins,“ segir Valgarður.
Þá er haft eftir Haraldi að Akranes sé eitt mest spennandi sveitarfélag landsins og það sé sannarlega heiður að vera trúað fyrir starfi bæjarstjóra. „Ég hlakka til að takast á við verkefnin með öflum hópi bæjarstjórnar og starfsmanna Akraneskaupstaðar.“