Landsfundur VG verður haldinn í Hofi á Akureyri um helgina. Fundurinn hófs síðdegis í dag og Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins og forsætisráðherra, flutti opnunarræðu fundarins klukkan 17.30. Ræðuna má sjá í spilaranum hér að neðan:
Fundurinn er haldinn í skugga ólgu innan flokksins. Í dag og í gærkvöldi hafa um þrjátíu flokksfélagar sagt sig úr flokknum eftir að útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra var samþykkt.. Þeirra á meðal eru varaþingmaður flokksins og sonur fyrrverandi formanns hans.
Einn þeirra sem viðstaddur var fundinn tók til máls á meðan Katrín flutti opnunarræðu fundarins. Sá greip fram í og sagðist ekki geta staðið lengur í salnum undir „lygum“ Katrínar. „Þetta er lygi. Lindarhvolsmálið gleymist. Þú gleymdir Lindarhvoli,“ kallaði maðurinn.
Katrín benti manninum þá vinalega á það hún væri ekki búin að tala. „Ég nenni ekki að hlusta á þessa helvítis lygi í þér,“ svaraði maðurinn. Þá benti Katrín honum á að honum væri frjálst að yfirgefa salinn.
„Ég mun gera það og ég vona að þú standir með þjóðinni, en sért ekki í stríði við hana. Að fara til Úkraínu og þykjast vera eitthvað og sért svo í stríði við þjóðina, skammastu þín,“ sagði maðurinn að lokum.