Í gær sögðu feðgin, sem nú höfða skaðabótamál gegn Seltjarnarnesi vegna þáverandi barnaverndarnefndar, að lög um lágmarksíbúafjölda virkuðu ekki sem skyldi vegna undanþága frá reglunni sem hægt er að sækja um og slíkt sé til þess fallið að bitna á börnum. Þau vilja í ljósi sinnar reynslu passa að öll börn geti fengið óháða og faglega þjónustu.
Sjá nánar: Krefjast breytinga og skaðabóta
Í lögunum er heimild til að víkja frá skilyrðinu um sex þúsund íbúa lágmark, til dæmis vegna landfræðilegra ástæðna og ef næg fagþekking er til staðar sem og samningur um umdæmisráð.
Barnamálaráðherra segir að ráðuneytið eigi í samtali við sveitarfélög um nákvæmlega þetta.
„Við leggjum höfuðáherslu á að þessi stærðarmörk séu virkt. Í einhverjum tilvikum er verið að biðja um undanþágur til ákveðins tíma en við erum í samtali við einstaka sveitarfélög allt í kringum landið vegna þess að hugsunin er sú að við vinnum þetta á það stórum svæðum, með það miklum íbúafjölda að það sé dregið úr líkum á því að einhvers konar tengsl myndist.
Reglan um lágmarksfjölda íbúa var sett á til að koma í veg fyrir nálægð starfsmanns og skjólstæðings og til að reyna að tryggja að ákvarðanir sem varða börn séu teknar af óháðum aðila.
„Við vitum það allt í kringum landið að það eru dæmi um slíkt og það er það sem við viljum sporna við.“
Ráðherra leggur áherslu á að umræddar undanþágur séu hugsaðar til skamms tíma og til að aðstoða sveitarfélög við að innleiða lögin.
„Á einstaka landsvæðum getur það verið þannig að landfræðileg staða og annað slíkt geri það að verkum að þetta sé til lengri tíma en undanþágur eiga ekki að vera almenn regla.“
Endurskoðun barnaverndarlaga er enn í gangi og reiknar ráðherra með að leggja fram frumvarp með miklum breytingum á lögunum næsta haust.