Tom Tugendhat, öryggismálaráðherra Bretlands, segir að Paludan hafi verið settur á eftirlitslista innflytjendayfirvalda og að honum verið meinað um að koma inn í landið.
„Ferðalag hans til Bretlands færi ekki saman við almannahag og honum verður ekki hleypt inn,“ sagði ráðherrann þegar hann var spurður út í yfirvofandi heimsókn Paludan í breska þinginu í dag.
Paludan er alræmdur fyrir að brenna Kóraninn og ögranir í garð múslima. Kóranbrennur hans í Svíþjóð eru meðal annars ástæða þess að Tyrkir hafa ekki viljað samþykkja aðild Svía að Atlantshafsbandalaginu.
Danski öfgamaðurinn ætlaði sér að ferðast til Wakefield í Vestur-Jórvíkurskíri til þess að mótmæla því að skólayfirvöld þar hafi vikið fjórum nemendum úr skóla fyrir að vinna skemmdarverk á Kóraninum. Hét Paludan því að berjast gegn „ólýðræðislegum öflum“. Ætlun hans var að kveikja í Kóraninum í borginni við upphaf ramadan, föstumánaðar múslima, á morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.