Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kerecis þar sem segir að fyrirtækið sé brautryðjandi í framleiðslu á lækningavörum úr þorskroði og fitusýrum sem verja líkamsvefi og græða. Hjá Kerecis starfa tæplega 500 manns. Höfuðstöðvar félagsins eru á Ísafirði, þar sem vörur félagsins eru framleiddar, en vöruþróun fer fram í Reykjavík. Sölu- og markaðsstarf er rekið frá Washington D.C. svæðinu í Bandaríkjunum og í Sviss, Þýskalandi og Austurríki. Mikilvægasti markaður Kerecis er í Bandaríkjunum.
Tækni Kerecis hefur vakið athygli á heimsvísu og félagið er í samstarfi um þróun og notkun á tækninni víða um heim, m.a. við bandarískar varnarmálastofnanir. Í Bandaríkjunum eru vörur Kerecis notaðar á mörgum stærstu sjúkrahúsum landsins.
„Það eru góðar og slæmar ástæður fyrir þessari velgengni,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis.
„Starfsfólkið er framúrskarandi, vörurnar góðar, tæknin er engu lík og við störfum í afskaplega góðu umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Á hinn bóginn hefur þörfin fyrir lækningavörur Kerecis aukist mikið, m.a. vegna mikils vaxtar á sykursýki og öðrum sjúkdómum sem valda þrálátum sárum og aflimunum. Það er ekkert lát á þeirri þróun og viðbúið að við munum áfram þurfa að þjónusta stækkandi hóp sjúklinga.“
Þetta er í sjöunda sinn sem FT-1000 listinn er gefinn út. Við gerð listans horfir Financial Times til samanlagðs árlegs tekjuvaxtar fyrirtækja milli 2018 og 2021. Á því tímabili óx Kerecis mikið, starfsmannafjöldi rúmlega þrefaldaðist úr 59 manns í 196 og árlegur samanlagður tekjuvöxtur nam 94,6%. Heildarvöxtur á tímabilinu nam 636,5%.