Frá þessu greinir í yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar en Vísir sagði frá því í gærkvöldi að sérveitin hefði verið kölluð út vegna slagsmála í Bankastræti. Sjúkrabifreiðar voru einnig sendar á staðinn.
Í yfirliti lögreglu segir að skömmu eftir útkallið hafi önnur tilkynning borist um að manni væri haldið fyrir utan skemmtistað í miðbænum og talið að málin tengdust. Lögregla sem var við leit vegna fyrra málsins náði mönnunum eftir skamma stund og voru fjórir handteknir á vettvangi.
Þeir höfðu hlaupið undan lögreglu og reynt að losa sig við áberandi fatnað sem fannst einnig á handtökustaðnum, segir í yfirlitinu. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu en rannsókn málsins er sögð á frumstigi.