Mikillar óánægju hefur lengi gætt með samgöngur til og frá Leifsstöð.
Víða erlendis eru strætisvagnar fyrsta val ferðamanna þegar kemur að ferðum til og frá flugvöllum. Það er hinsvegar ekki lenskan hér á landi, en þrátt fyrir að strætisvagn sé vissulega í boði eru ekki margir sem hreinlega gera sér grein fyrir því þar sem það er hvergi auglýst. Svo er óhætt að segja að eina strætóskýlið nálægt Leifstöð sé vandfundið.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram fyrirspurn til innviðaráðherra um almenningssamgöngur til Keflavíkuflugvallar í febrúar síðastliðnum.
Hvorki aðgengileg né augljós
Í aðsendri grein á Vísi um málefnið sagði Hildur að allt sem viðkæmi Strætó og ferðum milli flugvallarins og höfuðborgarinnar væri í hálfgerðum lamasessi.
„Upplýsingar og merkingar um aðgengi að strætisvögnum eru af mjög skornum skammti í flugstöðinni. Strætisvagnastöðin er fjarri flugstöðvarbyggingunni og hvorki aðgengileg né augljós. Ferðum Strætó er svo þannig háttað að engan veginn er hægt að treysta á að komast í eða úr flugi, sem oftar en ekki er að nóttu eða mjög snemma morguns. Leiðirnar ganga ekki einu sinni alltaf alla leið til Reykjavíkur,“ sagði Hildur.
Frétta- og tökumaður ákváðu að sannreyna þetta og taka út aðstæður í Leifsstöð í gær, sem sjá má í innslaginu hér fyrir ofan. Eftir smávægis basl við að finna eina strætóskýlið á svæðinu rétt misstum við af vagni 55. Næsta ferð var ekki fyrr en tæpum tveimur tímum síðar.
Rútur voru hinsvegar á hverju strái og ferðamenn streymdu í þær. Það virtist renna stoðum undir þá kenningu að ferðamenn almennt hafi ekki hugmynd um að strætó sé í boði líkt og fram kom í umfjöllun Vísis um málið í fyrra.
Starfshópur vinnur að úrbótum
En allt stendur þetta til bóta. Innviðaráðherra hefur skipað starfshóp og boðar úrbætur í málaflokknum. Búist er við fyrstu tillögum starfshópsins í næsta mánuði og tillögur til lengri tíma eiga að liggja fyrir í haust. Í hópnum eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Isavia, Strætó bs., Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum og Kadeco.
Meðal þess sem er til skoðunar er hvort strætóskýlið verði fært nær flugstöðinni.