Leikið verður á Bilino Polje-vellinum í borginni í stað þess að liðið spili á stærri velli í höfuðborginni Sarajevo. Það á til að myndast afar góð stemning á þessum velli en áhugavert verður að sjá hvaða áhrif það hefur á leikinn.
Greint var frá því fyrr í mánuðinum að aðeins um 3.500 áhorfendum yrði heimilt að mæta leikinn. UEFA hafi úrskurðað um að hluta stúkunnar yrði lokað þar sem stuðningsmenn Bosníu létu illa í leik liðsins við Rúmeníu í Þjóðadeildinni í haust. Þeir hentu þar drasli inn á völlinn, kveiktu á flugeldum, hlupu inn á völlinn auk þess sem óeirðir urðu í stúkunni.
Dómurinn var hins vegar aðeins skilorðsbundinn og gilda engar takmarkanir um fjölda í kvöld. Níu þúsund miðar af selst, líkt og áður segir, en völlurinn tekur um 15 þúsund manns í sæti.
Ljóst er að afar fáir, ef einhverjir, íslenskir stuðningsmenn verða í stúkunni og má gera ráð fyrir öllum þeim áhorfendum sem komast að á bandi heimamanna.
Landsliðsmönnum Íslands hefur þó verið tíðrætt um það í gegnum tíðina að þeir þrífist vel í góðri stemningu sem fer gegn þeim. Sagan segir að stuðningsmenn Bosníu geti hæglega snúist gegn liðinu ef illa gengur – líkt og sjá má á dæminu frá Rúmeníu-leiknum sem leiddi til bannsins.
Von stendur því auðvitað til að slíkt gangi eftir og að íslenska liðið nái að þagga niður í þeim níu þúsund áhorfendum sem koma saman á Bilino Polje-vellinum í kvöld.
Leikur Íslands og Bosníu hefst klukkan 19:45 og verður lýst beint á Vísi. Allt saman verður það svo gert vel upp eftir leik.