„Þetta er bara skyldusigur og maður á að fara í svona leiki með það hugarfar að þegar maður skorar fyrsta þá á maður bara að skora annað og svo koll af kolli og fara bara og slátra svona leikjum eins og við gerðum,“ sagði Hákon Arnar eftir leikinn.
Líklega bjuggust þó fæstir við því að miðvörðurinn og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson myndi skora þrennu fyrir íslenska liðið í dag, en það gerði hann þó svo sannarlega. Tvö mörk skoraði hann með skalla eftir hornspyrnu og fullkomnaði svo þrennuna með marki úr vítaspyrnu.
„Hann var nú ekki alveg líklegur fyrir leik, en hann kom frábærlega inn í þennan leik og hann gefur liðinu helling með talanda og sínum leiðtogahæfileikum. Svo er náttúrulega þrennan og hann var fullkominn í dag.“
„Hann er greinilega frábær fyrir framan markið. Það er greinilega fínt að vera með skalla og skalla þetta bara inn. Hann var frábær í dag.“ sagði Hákon léttur.
Sjálfur hefði Hákon líklega getað skorað þrennu í dag, en endaði leikinn þó aðeins með eitt mark. Hann skoraði þó annað mark sem var dæmt af og svo fékk hann gott færi til að bæta öðru marki við.
„Að sjálfsögðu hefði ég viljað skora meira. Mér finnst markið sem hann tekur af mér alveg galið og svo á ég alltaf að skora þarna einn á móti markmanni. Þannig ég hefði getað verið með þrennu á fimm mínútum eða eitthvað, en það gerist bara seinna.“
Markið sem Hákon skoraði var þó hans fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands. Hann segir það hafa verið sérstaka tilfinningu að sjá boltann enda í netinu.
„Já að sjálfsögðu. Það er alltaf sérstakt þegar þú skorar fyrsta landsliðsmarkið og það var bara frábær tilfinning að sjá boltann í netinu.“
Að lokum segir Hákon að tapið gegn Bosníu síðastliðinn fimmtudag hafi ekki setið of lengi í mönnum og því hafi liðið getað náð upp jafn góðri frammistöðu og í dag.
„Það þýðir ekkert annað. Við töluðum um að í 24 tíma getur maður alveg verið svekktur og svona, en svo eftir það er bara að fókusa á næsta leik eins og við gerðum og vorum frábærir í dag.“
„Við töluðum um það fyrir leik að það á að vera gaman í fótbolta og maður á að hafa gleði þegar maður er að spila. Við skoruðum snemma og það gefur þér helling og það er léttir að skora svona snemma. Svo náttúrulega keyrum við bara á þá,“ sagði Hákon að lokum.