Jamaíka gerði 2-2 jafntefli á útivelli á móti Mexíkó í lokaleiknum í nótt, leik sem liðið hefði þurft að vinna til að ná að tryggja sér efsta sætið og þar með sæti með þeirra fjögurra þjóða sem spila um titilinn.
Heimir tók við landsliði Jamaíka í september síðastliðnum en þetta var fyrsti keppnisleikur liðsins undir hans stjórn.
Jamaíka tapaði ekki leik í keppninni, gerði þrjú jafntefli og vann einn leik. Liðið endar með sex stig, tveimur stigum á eftir Mexíkó. Liðið fór ekki áfram í Þjóðadeildinni en tryggði sér sæti í Gullbikarnum, álfukeppni Norður- og Mið-Ameríku. Gullbikarinn fer fram í Bandaríkjunum í sumar.
Leikurinn í nótt fór aftur á móti fram við blautar aðstæður á hinum fræga Azteca leikvangi í Mexíkóborg.
Jamaíka komst tvisvar yfir í leiknum og í bæði skiptin í fyrri hálfleik. Bobby De Cordova-Reid skoraði fyrsta mark leiksins strax á sjöundu mínútu með frábæru skoti og seinna markið var sjálfsmark hjá Edson Alvarez á 32. mínútu.
Orbelin Pineda jafnaði fyrst metin í 1-1 á 17. mínútu en endanlegt jöfnunarmark kom úr vítaspyrnu í uppbótatíma en það skoraði Hirving Lozano. Ekkert mark var síðan skorað í seinni hálfleiknum.
Mexíkó var 69 prósent með boltann og átti 25 skot á móti sex frá Jamaíka. Liðin náðu hins vegar bæði fjórum skotum á markið. Allt tölur sem við þekkjum hjá liðum Heimis. Þau liggja kannski aftarlega en ógna samt.