Rétt eftir klukkan sex féll snjóflóð rétt utan við Neskaupstað og um sjö féll annað flóð. Þriðja flóðið féll svo úr Bakkagili um svipað leyti.
„Það fellur snjóflóð á hús í Neskaupstað. Það er fjögurra íbúða hús og það er á mikilli ferð, gluggar brotna og snjór fer þangað inn og jafnvel upp á aðrar hæðir. Í kringum tíu manns eru eitthvað slasaðir, enginn alvarlega en þeir eru í frekari rannsóknum. Það eru skrámur og skurðir og slíkt,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.
Nýjustu tíðindi má finna í vaktinni:
Víðir segir að flóðin hafi fallið á miklum hraða.
„Og virðist hafa verið höggbylgja á undan þeim sem brýtur meðal annars glugga áður en flóðið sjálft kemur. Þannig það var mikill kraftur í því en ekki neitt rosalega mikill snjór.“
160 hús rýmd
Víðtækar rýmingar standa yfir í Neskaupsstað og á Seyðisfirð sem taka til rúmlega 160 húsa. Íbúar Norðfjarðar sem ekki falla undir rýmingu eru hvattir til að halda kyrru fyrir heima, hlémegin í húsum og bíða frekari upplýsinga. Þá hefur öllu skólahaldi verið aflýst í Fjarðarbyggð sem og almenningssamgöngum.
„ Þetta gengur ágætlega en gengur hægt þar sem það er mikil ófærð og vont veður. Við erum að vonast til þess að veðrið gangi eitthvað niður seinni partinn í dag og þá gefist betra ráðrúm til að meta stöðuna, en það er verið að rýma þau hús sem talið er hætta að flóð geti fallið á.“
Allt viðbragð virkjað
Hann segir að mjög mikil snjóflóðahætta sé á svæðinu og hefur Vegagerðin því lokað Norðfjarðargöngum að beiðni lögreglu og almannavarna. Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í félagsheimilinu í Egilsbúð í Neskaupstað sem og í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði. Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna og samhæfingarstöðin virkjuð.

„Þyrla Landhelgisgæslunnar fór með snjóflóðaleitarhunda fyrir hádegi til Egilsstaða, við munum senda flugvél núna á eftir með í kringum sjötíu björgunarsveitarliða, fólk frá Rauða krossinum, lögreglumenn og sjúkraflutningamenn. Við munum færa bjargir frá Norðurlandi nær, varðskipið Þór var inni í Eyjafirði í morgun og er farið af stað. Við gerum jafnvel ráð fyrir að þeir geti tekið upp björgunarfólk á Vopnafirði ef þörf verður á.“
Mikilvægt að koma skilaboðum áfram
Hann hvetur fólk til halda ró sinni og huga að náunganum.
„Eins og Austfirðingar eru þekktir fyrir þá halda þeir ró sinni og hlýða því sem þeim er ráðlagt að gera. Það er mikilvægt að samfélagið tryggi að allir fái skilaboðin. Þetta er mjög alþjóðlegt samfélag og fólk sem talar ekki bara íslensku þarna þannig það er mikilvægt að allir kanni með sína nágranna og samstarfsfélaga og annað sem þeir haldi að hafi ekki náð þeim upplýsingum sem hafa verið í gangi. Tryggja að allir viti hvernig staðan er.“