Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir að um sé að ræða breska skipið Ambience. Um borð séu breskir ferðamenn, en skipið sigldi frá Bretlandseyjum til Færeyja og þaðan til Íslands. Skipið mun sigla aftur til Bretlands annað kvöld.
Sigurður Jökull segir að von sé á næsta skemmtiferðaskipi til Reykjavíkur á fimmtudaginn og þar sé einnig um að ræða skip frá Bretlandi.

„Við eigum von á 269 skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í ár og áætlum við að farþegar verði um 280 þúsund. Mesta breytingin nú er sú að um 100 þúsund af þessum farþegum eru svokallaðir skiptifarþegar, það er farþegar sem fljúga til Íslands og fara um borð í skipin eða þá koma með skipunum og fljúga frá landinu. Þeir verða því flestir hér í einhverja daga áður en þeir fara í skipin eða þá eftir að þeir fara frá borði. Þessir farþegar eru því almennt að skila meiru í kassann hér á landi,“ segir Sigurður Jökull.
Hann segir það mjög gaman að fá skip til landsins svo snemma árs til að dreifa álaginu og létta á innviðum. „Við myndum vilja sjá fleiri skip í apríl og maí, en flest skipin koma í júlí og ágúst.“