Innlent

Búist við um­tals­verðri úr­komu en telja ekki þörf á frekari rýmingum

Máni Snær Þorláksson skrifar
Svona voru aðstæður fyrir austan eftir snjóflóðin. Búist er við mikilli úrkomu á svæðinu á næstunni.
Svona voru aðstæður fyrir austan eftir snjóflóðin. Búist er við mikilli úrkomu á svæðinu á næstunni. Vísir/Sigurjón

Gert er ráð fyrir umtalsverðri úrkomu á Austfjörðum í kvöld og fram til föstudagsmorguns. Bæði er spáð snjókomu og rigningu. Töluverður fjöldi húsa á Austurlandi var rýmdur í kjölfar snjóflóða sem féllu á svæðinu í upphafi vikunnar. Veðurstofa telur að ekki sé þörf á frekari rýmingum að svo stöddu.

Lögreglustjórinn á Austurlandi og Veðurstofan funduðu fyrr í dag vegna úrkomunnar sem byrjar á sunnanverðum fjörðunum. Þrátt fyrir að ekki verði frekari rýmingar eru íbúar fyrir austan beðnir um að hafa varann á nærri árfarvegum vegna mögulegra krapaflóða. Þá eru íbúar beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum frá lögreglu á vefmiðlum.

Einnig eru þeir íbúar Austurlands sem hafa bókað flug frá Egilsstöðum í kvöld klukkan 19:30 hvattir til að vera tímanlega á ferðinni þar sem vegirnir um Fagradal og Fannardal verða settir á óvissustig klukkan 19:00 í kvöld.

Vegna óvissu sem nú er uppi vegna veðurs er íbúum bent á hjálparsíma Rauða krossins 1717.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×