Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sagði í viðtali á Vísi fyrr í dag að umræðan um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði væri leiðigjörn og ósanngjörn. Hún sagði meðal annars:
„En hér á landi er endalaust verið að rífast um það hvort RÚV eigi að vera á auglýsingamarkaði eða ekki. Ég er bara komin með nóg af þessari umræðu. Það er ekki hægt að taka umræðuna um stöðu fjölmiðla alltaf í gíslingu með því að tala um RÚV á auglýsingamarkaði.“
Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni nú fyrir stundu voru þeir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum og Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar til svars um stöðu fjölmiðla á Íslandi eftir fall Fréttablaðsins nú í morgun. Magnús segir umsvif RÚV alltof mikil, sérstaklega í kringum stór verkefni.
„Þegar að Ríkisútvarpið fer í stór verkefni þá er eins og engisprettuplága gangi yfir markaðinn. Þú þolir kannski eitt slíkt verkefni. En núna síðan fyrir jól þá er Ríkisútvarpið búið að vera með Heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu, Heimsmeistarakeppnina í handbolta og þaðan yfir í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Þetta er það sem drap N4. Þau gátu ekki verið fjórða mánuðinn án þess að hafa tekjur.“
Þá sagði hann ummæli formanns Blaðamannafélags Íslands vera umhugsunarverð.
„Formaður sambandsins er starfsmaður RÚV, þannig að ég ætla að gjalda varhug við því. Þetta er þrjátíu ára gömul og leiðigjörn umræða. Í fjármálaáætlun er talað um að hefta einhvers konar umsvif hjá RÚV. Þau eru alltaf dugleg að finna leiðir framhjá. Um leið og það má ekki auglýsa í þáttum sem eru klukkutími þá eru flest prógrömm hjá RÚV orðin sjötíu mínútur.“