Leiðbeinandi á leikskóla með eins árs starfsaldur fær, samkvæmt nýja samningnum, launahækkun upp á tæpar 40 þúsund krónur á mánuði. Verkamaður með sjö ára starfsaldur fær hækkun upp á rúmar 38 þúsund krónur. Þá fær deildarstjóri á leikskóla, með níu ára starfsaldur, 47 þúsund króna launahækkun og svo áfram mætti telja.
Gert er ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla félagsfólks fari fram strax eftir helgi. Kjarasamningurinn gildir í tólf mánuði.
„Niðurstaða þessa samnings er að mati samninganefndar ásættanleg. Samningsvilji og lausnamiðun var til staðar af hálfu Reykjavíkurborgar og raunverulegt samtal náðist. Ég lýsi ánægju með hversu vel tókst að viðhalda verðmæti sérstakra greiðslna sem voru stærsti sigur Eflingarfélaga í kjarasamningunum 2020. Ég hvet félagsfólk til að fylgjast vel með kynningu á inntaki samningsins og taka þátt í atkvæðagreiðslunni um hann,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar í tilkynningu.
Sérstakar greiðslur hækka vegna lægstu launa, annars vegar samkvæmt starfsmatsstigum og hins vegar fastar greiðslur til starfsfólks í leikskólum og í heimaþjónustu. Greint er frá því að kjarasamningsviðræðunum hafi aldrei verið vísað til ríkissáttasemjara. Samningurinn hafi því verið undirritaður í húsakynnum Eflingar.