Kea­ne bæði skúrkurinn og hetjan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Michael Keane kom mikið við sögu í kvöld.
Michael Keane kom mikið við sögu í kvöld. Emma Simpson/Getty Images

Leikur Everton og Tottenham Hotspur var í járnum þangað til Abdoulaye Doucoure fékk rautt spjald á 58. mínútu og gestirnir fengu vítaspyrnu tíu mínútum síðar. Gestirnir fengu hins vegar einni rautt spjald og Michael Keane jafnaði metin með einu óvæntasta langskoti síðari ára. Lokatölur á Goodison Park í kvöld 1-1.

Einn leikur fór fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Everton, sem berst fyrir lífi sínu á botni deildarinnar, tók á móti þjálfaralausu Tottenham sem lætur sig enn dreyma um að enda í Meistaradeildaræsti. Hvað leik kvöldsins varðar þá var staðan markalaus að loknum fyrri hálfleik.

Það virtist svo sem tíu mínútna kafli í síðari hálfleik myndi tryggja gestunum frá Lundúnum sigurinn. Harry Kane náði þá að pirra Doucoure nægilega mikið til að miðjumaðurinn brást við með því að slá Kane í andlitið. Fékk hann umsvifalaust að líta rauða spjaldið.

Tíu mínútum síðar braut áðurnefndur Keane af sér innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Kane fór á punktinn og skoraði af öryggi. Þrátt fyrir að vera manni færri þá sótti Everton og sótti í kjölfar þess að lenda undir. Það var svo þegar tvær mínútur rúmar voru eftir af venjulegum leiktíma sem það varð jafnt í liðum.

Varamaðurinn Lucas Moura fékk þá rautt spjald fyrir að traðka illa á fæti hvers annars en Michael Keane. Það var svo á síðustu mínútu venjulegs leiktíma sem Keane bætti upp fyrir brotið í aðdraganda vítaspyrnunnar. Hann var með boltann fyrir utan teig og ákvað að láta vaða. Boltinn svoleiðis þaut í netið við mikinn fögnuð heimamanna og staðan orðin 1-1.

Má með sanni segja að þarna hafi verið eitt óvæntasta langskot síðari ára en Keane verður seint þekktur fyrir sín þrumuskot. Mörkin urðu ekki fleiri og lauk leiknum með 1-1 jafntefli. 

Tottenham fer upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með jafntefli kvöldsins. Liðið er með 50 stig, líkt og Manchester United sem er sæti neðar en á þó tvo leiki til góða. Everton er í 15. sæti með 27 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira