Matvælastofnun segir að bændurnir á Bergsstöðum hafi haft samband í síðustu viku og tilkynnt um veikar kindur með einkenni sem pössuðu við riðu. Starfsmenn stofnunarinnar tóku þá sýni og staðfesti tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum að riða væri í fénu.
Nú er unnið sé að undirbúningi aðgerða en Matvælastofnun vill að 690 kindum á bænum verði lógað sem fyrst í ljósi þess að mest smithætta sé við sauðburð.
Bergsstaðir eru í sóttvarnasvæðinu Miðfjarðarhólfi en það hefur fram að þessu talist ósýkt svæði samkvæmt reglugerð um útrýmingu á riðuveiki. Nú verður svæðið skilgreint sem sýkt. Það hefur í för með sér að óheimilt verður að flytja sauðfé til lífs milli hjarða í hólfinu og hvaðeina annað sem getur borið smitefni á milli staða eins og hey, heyköggla, hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold. Þá verður óheimilt að hýsa aðkomufé, fóðra það eða brynna því með heimafé.
Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé, að því er segir í grein á vef Matvælastofnunar. Hún veldu hrörnunarskemmdum í heila og mænu dýranna. Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur aflagað prótín. Veikin leiðir kind stundum til dauða á fáum vikum eða skemur. Smitefnið er talið geta lifað í umhverfi í meira en áratug og komið upp á sama bæ oftar en einu sinni.