Enski boltinn

Eriksen mættur aftur til æfinga hjá United

Sindri Sverrisson skrifar
Það styttist í að Christian Eriksen spili aftur fyrir Manchester United.
Það styttist í að Christian Eriksen spili aftur fyrir Manchester United. Getty/ Joe Prior

Christian Eriksen byrjaði í dag að æfa að nýju með liði Manchester United eftir að hafa verið frá keppni vegna meiðsla síðan í janúar.

Eriksen meiddist í ökkla í bikarsigri gegn Reading í janúar, eftir tæklingu frá Andy Carroll.

Upphaflega var talið að Eriksen yrði frá keppni til loka apríl en nú er útlit fyrir að hann snúi fyrr til leiks, þó að ekki verði hann með gegn Brentford á morgun.

„Ekki á morgun en hann er að snúa aftur út á völlinn. Hann snýr aftur til æfinga með liðinu í dag og við verðum svo að sjá hve fljótt ferlið gengur fyrir sig hjá honum,“ sagði Erik ten Hag á blaðamannafundi í dag.

United tapaði mikilvægum leik gegn Newcastle á sunnudag og er sem stendur í 5. sæti, utan sætanna fjögurra sem gefa sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Liðið er þó jafnt næstu liðum, Newcastle og Tottenham, að stigum og á tvo leiki til góða á Tottenham.

Aðspurður hvaða áhrif það hefði fyrir United að hafa verið án Eriksen og Casemiro, sem er í leikbanni, svaraði Ten Hag:

„Þetta eru tvær gæðaleikmenn. Hvað miðjuna varðar þá ráðast leikir á miðsvæðinu og það er augljóst þegar tvo gæðaleikmenn vantar. En maður er með hóp leikmanna og þó að það vanti menn þá verður maður samt að vinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×