Innlent

Ís­lenska drag­drottningin Heklína látin

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Heklína á sviði árið 2012.
Heklína á sviði árið 2012. Wikipedia

Stefan Grygelko, betur þekktur sem dragdrottningin Heklína, er látin aðeins 54 ára að aldri. Þetta kemur fram hjá sjónvarpsstöðinni NBC. Grygelko var vel þekkt í hinsegin samfélaginu í San Francisco, rak sinn eigin klúbb og kom fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Grygelko var fædd þann 17. júní árið 1967 í Minnesota fylki í Bandaríkjunum. Hún átti íslenska móður, og bjó á Íslandi á níunda áratugnum. Nafnið Heklína er dregið af eldfjallinu Heklu.

Ferillinn hófst árið 1996 á barnum The Stud í San Francisco en seinna meir stofnaði Grygelko dragklúbbinn Trannyshack, sem heitir í dag Mother. Grygelko kom einnig fram víða annars staðar. Meðal annars á Íslandi. Fegurðarsamkeppnin Miss Trannyshack er einn af stærstu drag viðburðunum í San Francisco.

Meðal kvikmynda sem Grygelko kom fram í var All About Evil, Baby Jane? og Hush Up Sweet Charlotte. Einnig var hann þátttakandi í þætti hjá Jerry Springer og Söru Silverman.

Þá var Grygelko afar virk í góðgerðarmálum og fjáröflun fyrir málefni tengd hinsegin samfélaginu. Meðal annars tók hún þátt í að safna fé fyrir rannsóknum á HIV og alnæmi.

Grygelko fannst látin á mánudag í London, aðeins 54 ára að aldri. En hún var í borginni til að setja á svið leikritið Mommie Queerest í Soho hverfinu. Ekki hefur verið gefið upp hver dánarorsökin er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×