Lífið

Heimili Grey's Anatomy stjörnu brann til kaldra kola

Máni Snær Þorláksson skrifar
Caterina Scorsone er þakklát fyrir að hafa náð að koma sér og börnunum sínum út. Hún syrgir þó gæludýrin sín sem ekki tókst að bjarga úr eldsvoðanum.
Caterina Scorsone er þakklát fyrir að hafa náð að koma sér og börnunum sínum út. Hún syrgir þó gæludýrin sín sem ekki tókst að bjarga úr eldsvoðanum. IMDB/Instagram

Leikkonan Caterina Scorsone greindi frá því á Instagram-síðu sinni í dag að heimili hennar hafi brunnið til kaldra kola fyrir nokkrum mánuðum síðan. Hún prísar sig sæla að í lagi sé með fólkið á heimilinu en syrgir á sama tíma gæludýrin fjögur sem dóu í eldsvoðanum.

„Ég hafði um tvær mínútur til að koma börnunum mínum þremur úr húsinu,“ segir Scorsone í Instagram-færslunni. Leikkonan, sem er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt sem Amelia Shepherd í Grey's Anatomy, segir að hún og börnin sín hafi ekki einu sinni náð að klæða sig í skó þegar þau hlupu út úr húsinu.

Scorsone tók eftir því að kviknað væri í húsinu á meðan hún var að gera börnin sín klár fyrir háttinn. Þau voru í baðherberginu þegar hún tók eftir reyknum. Hún fór fram á gang og sá þykkan og svartan reyk sem fyllti húsið.

„Við náðum að komast út og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.“

Sem fyrr segir tókst þó ekki að bjarga gæludýrunum á heimilinu. „Við erum ennþá að jafna okkur á þeim missi en við erum heppin að hafa fengið að elska þau öll,“ segir Scorsone.

Þakklát fyrir hjálpina

Leikkonan segist ekki hafa ákveðið að birta færsluna til að fjalla um eldinn heldur til að segja frá allri hjálpinni sem þau fengu í kjölfar hans. „Þetta er færsla um samfélag. Þetta er ástarbréf til alls frábæra fólksins sem kom og alla ótrúlegu hlutina sem þau gerðu,“ segir hún.

Þá sendir hún slökkviliðsmönnunum og lögreglunni þakkir sem og nágrannanum sínum sem svaraði er þau bönkuðu á dyr hans þarna um kvöldið. Einnig þakkar hún foreldrum barnanna sem eru með hennar börnum í skóla en hún segir þá hafa sent leikföng og bækur til barnanna sinna.

Því næst þakkar hún vinum sínum sem koma að gerð sjónvarpsþáttanna Grey's Anatomy og Shondaland og sendu fjölskyldunni föt og fleiri hluti. Svo þakkar hún systrum sínum og teyminu sínu fyrir hjálpina þeirra.

„Það eina sem skiptir máli er samfélagið. Við værum ekki hérna án þeirra og við erum svo þakklát. Takk fyrir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×