Innlent

Látnir lausir þrátt fyrir sérstaklega grófa árás

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
RÚV hefur eftir heimildarmönnum sínum að þetta sé með grófari árásum sem þeir muna eftir.
RÚV hefur eftir heimildarmönnum sínum að þetta sé með grófari árásum sem þeir muna eftir. Vísir/Vilhelm

Tveimur mönnum hefur verið sleppt úr haldi þrátt fyrir að þeir séu grunaðir um hrottalega árás á mann, sem er sagður hafa verið nær dauða en lífi þegar hann komst undir læknishendur.

Frá þessu greinir Ríkisútvarpið en í frétt miðilsins segir að mennirnir hafi verið látnir lausir eftir að Landsréttur hafnaði í gær að framlengja gæsluvarðhald yfir þeim.

Samkvæmt RÚV hefur málið verið til rannóknar í tvo mánuði.

Árásin átti sér stað í húsnæði við Vatnagarða, þar sem skömmu síðar kviknaði í. Hún er sögð hafa tengst peningum og hafa staðið yfir í um tvær klukkustundir.

Samkvæmt heimildum RÚV var þolandinn keflaður á höndum og fótum, látinn afklæðast, hýddur með belti, skorinn, laminn og stunginn með stálröri. Þá var hann kýldur ítrekað og skótá sparkað eða troðið í endaþarm hans.

Árásarmennirnir eru sagðir hafa tekið árásina upp á síma og RÚV segir myndskeiðið svo gróft að lögreglumenn hafi átt erfitt með að horfa á það.

Manninum tókst að lokum að komast undan og braut rúðu í nálægu húsi til að freista þess að vekja athygli á sér. Árásarmennirnir eltu hann hins vegar uppi og náðu honum og köstuðu inn í bíl. Þar tóku þeir eftir því að það blæddi verulegar úr slagæð á handlegg.

Þá skildu þeir hann eftir, með síma, þannig að hann gat hringt á aðstoð.

Lögregla hefur mennina grunaða um tilraun til manndráps en Landsréttur hafnaði áframhaldandi gæsluvarðhaldi á þeim forsendum að ekki lægi fyrir „sterkur“ grunur, þar sem ekki er vitað hvernig maðurinn fékk sárið á handleggnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×