Enski boltinn

Segir að Liverpool geti ekki lengur spilað eins og Klopp vill

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp ræðir við Diogo Jota eftir leik Liverpool og Chelsea.
Jürgen Klopp ræðir við Diogo Jota eftir leik Liverpool og Chelsea. getty/Clive Rose

Jamie Carragher segir að Liverpool geti ekki spilað eins og Jürgen Klopp vill að liðin sín spili.

Liverpool gerði markalaust jafntefli við Chelsea í gær. Þetta var þriðji leikur liðsins í röð án sigurs í ensku úrvalsdeildinni. Rauði herinn situr í 8. sæti hennar.

Carragher segir að Liverpool þurfi ef til vill að breyta um leikstíl og gera stóra hluti á félagaskiptamarkaðnum í sumar.

„Maður horfir á Liverpool og þeir gera sömu hlutina, sama hugmyndin er til staðar en þeir geta þetta ekki,“ sagði Carragher á Sky Sports í gær.

„Sem þjálfari heldurðu þig við hugmyndir þínar eða aðlagar þær leikmönnunum sem þú ert með. Klopp er augljóslega frábær þjálfari en jafnvel í kvöld spiluðu þeir eins og Liverpool fyrir 3-4 árum. Þeir náðu markalausu jafntefli en þú klórar þér í hausnum hvernig. Stóra málið er hversu auðveldlega andstæðingurinn fær færi.“

Næsti leikur Liverpool er gegn Arsenal, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, á páskadag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×