Sport

„Áhyggjurnar liggja á mörgum stöðum“

Andri Már Eggertsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leik.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leik. Vísir/Hulda Margrét

Valur tapaði gegn Stjörnunni 37-32. Þetta var fimmta tap Vals í röð og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, hafði áhyggjur af taphrinu Vals.

„Það vantaði mikið upp á í kvöld og aftur töpuðum við nokkuð sannfærandi. Við vorum að fá á okkur rosa mikið af mörkum. Við vorum laskaðir og ekki að spila eins og við erum vanir að gera en það var engin afsökun,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson eftir leik.

Það var mikið skorað í fyrri hálfleik og Valur fékk á sig 21 mark. Staðan í hálfleik var 21-18. 

„Það var mikið skorað þar sem bæði lið voru að keyra hratt. Markvarslan var lítil og varnarleikurinn ekkert frábær sem var ástæðan fyrir því af hverju það var svona mikið skorað.

Valur var að tapa fimmta leiknum í röð og Snorri Steinn hafði miklar áhyggjur af stöðu Vals. 

„Áhyggjurnar liggja á mörgum stöðum. Spilamennskan hefur ekki verið góð, við erum að lenda í miklum meiðslum og við höfum fullt til að hafa áhyggjur af.“

En þarf Snorri Steinn að fara að breyta leikstílnum vegna meiðsla í herbúðum Vals?

„Menn hafa sína kosti og galla. Við erum að reyna nota þessa síðustu leiki í deildinni til að sjá hvar við stöndum og fá svör við einhverju.“

Björgvin Páll Gústavsson, Magnús Óli Magnússon og Tjörvi Týr Gíslason voru allir laskaðir en Snorri átti von á að þeir yrðu klárir í úrslitakeppnina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×