Fjölbreytta dagskrá má nú kynna sér á heimasíðu hátíðarinnar. Eins og áður segir er yfirskrift hátíðarinnar „Hvað nú?“
„Hvað er að gerast núna? Hvað tekur við? Hvað ber framtíðin í skauti sér?“ segir í tilkynningu frá Hönnunarmars. Þar segir enn fremur:
„Yfir 100 sýningar, 400 þátttakendur og 100 viðburðir munu endurspegla það sem er að gerast núna á sviði hönnunar og arkitektúrs, veita innsýn inn í nýjar lausnir og hugmyndir og sýna nýjar leiðir til að takast á við áskoranir samtímans til innblásturs fyrir þátttakendur og gesti.“

Endurvinnsla, endurnýting, nýsköpun, verðmætasköpun, tilraunir, leikur verða rauður þráður í dagskránni.
„Ólíkar hönnunargreinar á borð við arkitektúr, grafíska hönnun, fatahönnun, vöruhönnun, stafræna hönnun og allt þar á milli sýna þá grósku sem á sér stað í hönnun hér á landi.“
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks ríður á vaðið í Hörpu miðvikudaginn 3. maí en í kjölfarið opna sýningar hátíðarinnar sem stendur til sunnudagsins 7. maí.
Hægt er að kynna sér dagskrána nánar hér.