Innlent

Svört gæs vekur athygli

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það glampar á svartar fjaðrir skuggagæsarinnar fögru.
Það glampar á svartar fjaðrir skuggagæsarinnar fögru. Sveinn Jónsson

Myndir náðust af sérkennilegri grágæs í Háaleitishverfinu í vikunni. Grágæsin er sérkennileg fyrir þær sakir að hún er ekki grá heldur svört. Líklega er um genagalla að ræða, svokallaða sortu sem veldur ofgnótt af litarefninu melaníni í húð dýra. 

Sveinn Jónsson, ljósmyndari, birti myndir af „skuggagæsinni“ eins og hann kallar hana á Facebook í vikunni. Þessi grágæsarfrú var stödd í Háaleitishverfinu með tilvonandi maka sínum þegar Sveinn fann þau.

Í skiptum fyrir nokkra brauðmola fékk hann að mynda hjónin.

Hjónin spígsporuðu um í grasinu í Háaleitishverfinu.Sveinn Jónsson

Sveinn skrifar í færslu sinni að líklega sé um „melanisma“ að ræða en það er litningagalli sem á íslensku kallast sorta og er í raun andhverfa albínisma. Á meðan albinóar búa ekki yfir neinum melanín-litarefnum þá er ofgnótt af litarefninu í húð þeirra sem lifa við sortu.

Myndirnar af gæsinni eru ansi magnaðar og er hún hin tignarlegasta.

Sjáldséðir eru hvítir hrafnar og svartar gæsir.Sveinn Jónsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×