Enski boltinn

Enn ein afsökunarbeiðnin frá dómurum til Brighton

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Víti!
Víti! vísir/Getty

Enska dómarasambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dómaramistaka í leik Tottenham og Brighton í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Kaoru Mitoma, sóknarmaður Brighton, átti augljóslega að fá dæmda vítaspyrnu þegar Pierre Emile Hojbjerg, miðjumaður Tottenham, braut á Mitoma innan vítateigs en Stuart Attwell, dómari leiksins, dæmdi ekkert.

Michael Salisbury var dómarinn í VAR herberginu og brást algjörlega en Attwell var ekki sendur í skjáinn til að skoða atvikið betur.

Leiknum lauk með 2-1 sigri Tottenham en staðan var jöfn, 1-1, þegar atvikið með Mitoma átti sér stað. Brighton menn voru ósáttir með fleiri ákvarðanir dómaranna í leiknum en tvö mörk voru dæmd af liðinu svo eitthvað sé nefnt.

Um var að ræða gríðarlega mikilvægan leik í baráttunni um Evrópusæti.

Brighton hafa verið afar óheppnir með dómgæslu á tímabilinu en þetta er í þriðja sinn sem dómarasambandið sér sig knúið til að biðjast afsökunar á mistökum sem bitnað hafa á Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×